Heim.

Sameiginlegur pistill frá Greifanum af Saint German, Hillarion og Moreya sunnudaginn 7.4 2002.

Mig langar til þess að hefja mál mitt á því að hafa orð á því, að ef fólk mundi sjá og fylgjast með því hversu orkustig breytist á yfirborði jarðar á þessum tveimur eða þremur dögum sem allir setja upp sparisvipinn og halda páska, þá mundi fólk halda páska allt árið um kring.

Því hef ég mál mitt á þessum orðum til þess að benda fólki á að þegar fólk setur sér inn jákvæða hugsun, leggur frá sér þrasið, fagnar fermingum og öðrum stórhátíðum, þá dettur niður neikvæð hugsun hjá svo mörgum að orkustig þessara daga breytist, verður allt annað og þess vegna ætti fólk að huga að því hvort ekki væri rétt að hafa páska allt árið um kring, svo að það mætti ríkja náungakærleikur, fyrirgefning og ekki síst vinátta og friður á milli alls mannkyns.

Vegna þess að hvað græðir fólkið á því að hafa horn í síðu hvors annars, hvað græðir fólk á því að senda hvort öðru neikvæðar hugsanir.

Það eina sem það hefur út úr því er eigin vanlíðan, vegna þess að allt sem þú sendir frá þér kemur til baka aftur til þín og í nútímasamfélagi með þeirri orkuuppbyggingu sem orðin er gerist það á afskaplega skömmum tíma, stundum á sama sólarhringnum en aldrei minna en á sömu vikunni.

Því kveð ég svo fast að orði að ég vill að fólk skoði það og reyni það með sinni eigin hugsun með sinni eigin framkomu að sleppa neikvæðninni og gera alltaf eins gott úr öllum hlutum og kostur er, senda kærleikann ávalt á undan sér, óska öllum ávalt góðs dags, gæfu og gengis um alla framtíð.

Ef það er ekki gjört þá hlýtur það eins og ég hef áður sagt að verða verst fyrir þann sem það gjörir.

Ég ætla að láta þetta liggja með þessum orðum, veit að þetta er að margra mati þung orð, en þegar fólk ekki hlustar þá verður að leita þeirra leiða sem færar eru til að fólk hlusti, til þess að hlutirnir megi verða fólki ljósir.

En þessi orð hefur mælt Greifinn af Saint German sem biður kærleika og frið að ríkja með ykkur hið efra sem hið neðra hið innra sem hið ytra.

Ég kom hér með nokkur orð fólki til umhugsunar og því að leyfa samhljómi okkar að komast á framfæri.

Það sem mig langar til að segja hér að þessu sinni er að framtíðin sem nú kemur og gengur í hönd á eftir að verða þessum farvegum geysilega lærdómsrík, ekki vegna þeirra eigin uppbyggingar í sjálfu sér, heldur vegna þess að þeir eiga eftir að sjá og horfa á hvernig hlutirnir sem þeir hafa verið að vinna að seinustu árin munu birta sig, ekki aðeins þeim heldur þeim sem í kringum þá eru, það mun kosta örlitla orkuvinnu, ég veit það, en hinsvegar þarf það að fara fram.

Þessi orka sem við erum að tala um í þessu sambandi hefur ekki aðeins áhrif á þessa farvegi, hún hefur líka áhrif á alla þá sem hana snerta, vegna þessi orka hreinsunar, orka uppgjörs en fyrst og fremst og eingöngu orka kærleiks, skilnings og þess að vera til staðar fyrir aðra þegar þeir þurfa á að halda en vísa engum frá sér.

Þetta er kannski örlítið meira stefnumótandi en kom fram hérna áðan fyrir þá sem eru að vinna með þessa orku, það snýst ekki bara um þá farvegi sem hér hafa setið og leift okkur að tala okkar máli, það snýst líka um þá sem vinna í því sem þið kallið vökumiðlun, í því sem þið kallið heilun, það snýst um að allir þeir sem hafa boðið fram krafta sína til þess að hjálpa meðbræðrum sínum til að stíga einu skrefi hærra í þroska, til þess að tendra örlítið skærara ljós, þeir eru að taka inn þessar breytingar, breytingar sem ég get helst lýst í því að orkan sem var hún er massíf hún er hreinsandi, en hún er krefjandi hún er að mörgu leyti hörð því hún er óvægin, orkan sem aftur á móti tekur við hefur miklu meiri dýpt, ber miklu fleiri liti, hefur miklu meiri mýkt vegna þess að kærleikurinn sem hún geymir kemur í gegnum í þá mjúku plánetu sem Venus heitir og kemur þess að auki frá því sem þið kallið tíva og englasvið og er þess vegna mun fínni heldur en sú orka sem hefur verið í gangi fram að þessu.

Vegna þess að það er hægt að búa til bolta hvort sem það er á milli handa eða hugsuninni, bolta kærleiks og senda út á meðal fólks án þess að segja aukatekið orð, það er undir þeim komið sem boltann sendir hvort hann inniheldur kærleika eða eitthvað annað, við skulum biðja þess að boltarnir innihaldi eingöngu kærleik og góðar hugsanir og árnaðaróskir öðrum til handa og ekki bara persónunum sem ganga á meðal okkar dag hvern, heldur alheiminum, jörðinni og öllum þeim sem á jörðinni búa og það að muna eftir því að biðja um frið.

Það kunna margir að spyrja af hverju ég hafi valið að koma hérna í kvöld, en eins og sagt var hér á undan mér þá mun það skýrast í máli þess sem seinast kemur vegna þess að þannig verður heildræn tjáning að samfellu. Bið ykkur Guðs blessunar og kærleika og bið ykkur að geyma kærleikann ávalt í hjarta ykkar og hugsun öllum og öllu til handa.

Hillarion.

Þá er sá þriðji kominn og heitir Moreya og mun setja samfelluna saman í lok orða sinna.

Þess vegna komum við hérna þrír saman sem höfum annan farveg hér í þessu húsi í kvöld. Vegna þess að við náðum ekki þeim samhljómi sem við ætluðum að ná hér fyrir tæpri viku síðan.

Samhljómurinn er nauðsynlegur vegna þess að þegar að orkan fer út úr þessu húsi þá hljómar hún í ákveðnum takti í ákveðinni samfellu. Hún fer ekki út og henni verður ekki dreift fyrr en hún er blönduð saman þannig að boðskapur okkar allra geti hljómað til þeirra sem orkuna lesa.

Og ég vil þá biðja fólk í þeim orðum sem ég flyt inn að huga að þeirri staðreynd að tíminn er ekki eilífur fyrir mannfólkið til að breyta því sem breyta þarf. Það getur með sanni sagt að tíminn sé afstæður, hann getur verið augnablik sem líður hjá, en hann getur aldrei verið óendanlegur á meðan mannfólkið heldur áfram að taka líf hvers annars og meðan það heldur áfram að troða skóinn hvert ofan af öðru í orðum sínum og hugsunum, í orkusendingum og faðir Guð má vita hvað.

Ef að fólk getur ekki lært að senda kærleikann sín á milli í sínu daglega lífi, þá mun eitthvað verða til þess að kenna því það öðruvísi mun það ekki ganga fram eða verða að veruleika.

Ég vill líka biðja fólk að hafa það hugfast að þó að viljaþátturinn sem ég stend fyrir í orkusetningunni sé góður og gegn, þá verður hann alltaf að vera í kærleika og án skilyrða til þess að honum sé beitt af fullum þunga.

Því væntingar blandaðar inn í þann vilja eru skaðlausar en hafa ekki áhrif, síðan ef við tökum eigingirni, eiginhagsmuni blandaðan inn í þann vilja þá hlýtur það ávalt að bitna á þeim sem það sendir frá sér út í orkumunstrið.

Svona til þess að róa fólk þá er ég ekki að tala til fólks hér nema það vilji sérstaklega tileinka sér orð mín, ég er að tala þetta svo það megi bæði hljóma með orkunni og vonandi sem allra fyrst birtast á þeim stað sem efnið hefur verið birt af fundum hér, svo að sem flestir megi meðtaka það sem fram kemur sem allra fyrst.

Ég bið ykkur að varveita þessi orð segja það öðrum ef þið teljið það þess virði, en umfram allt bið ég ykkur að varveita kærleikann og láta aldrei neitt koma í staðinn fyrir hann, því það er ykkar gæfa að bera með ykkur.

Að svo búnu þakka ég ykkur fyrir að leyfa mér að koma að þessu sinni og ljúka því sem við höfum þurft að gera hér í kvöld.

Ég bið ljós kærleikans að lýsa ykkur hvert sem þið farið og hvar sem þið eruð.

Moreya.