Til Baka.

Sant German.

Spurningar og svör 10 Ágúst 03.

 

 

 

Mig langar til þess að fá að vita aðeins um plánetuna Mars.  Hún er svo nálægt Jörðinni núna,  hvernig hún virkar og hvernig hún kemur inn á okkur.

 

Í raun og veru spilar marsinn núna bæði inn á tunglið og sólina.  Marsinn náttúrulega finnur miklu meiri samsvörun í sólinni, því eldurinn finnur alltaf samsvörun í eldinum og er illa við vatnið sem reynir að slökkva hann.  En samt vinnur marsinn talsvert inn á tunglið, og þar með tilfinningarnar og mun gera það næstu tvo og hálfan til þrjá mánuði.  Vegna þess að við getum sagt það, að það er verið að, ef við tölum um jörðina í heild sinni er verið að hjálpa mannkyninu til þess að geta fært athafnaorkuna sína inn í tilfinningarnar.  Til þess að geta unnið frá hjartanu myndu sumir kalla það, þetta er bara spurning um orðalag.  Vegna þess að þannig líður mannkyninu best að vinna.  Að vinna við það sem kemur frá hjartanu og vinna með hjartanu við það sem verið er að takast á við hverju sinni, hvort sem það er tilfinningalegt eða aðeins veraldlegt stritbrauð, eins og þið mynduð orða það. 

Þetta eru nú svona stærstu áhrifin sem marsinn mun hafa, en hins vegar mun líka fyrir þá sem skoða sólarstöðu sína gagnvart fæðingarkorti stjarnanna, þá mun líka koma í ljós að marsinn verður sterkur og mun sterkari en hann hefur verið hjá þeim sem eru með sólina, eigum við að segja hjá þeim sem eiga afmæli næstu tvo og hálfan til þrjá mánuði, og þetta er búið að vara núna í einn og hálfan mánuð sem þetta hefur verið að aukast.  Þannig að við getum sagt að hæðin verði aldrei til í beinni línu upp, það kemur alltaf smá aðdragandi og síðan fjarar hún hægt og rólega út aftur.  Ég veit ekki hvort þetta svarar í raun því sem þú varst að leita eftir, en þetta eru svona þær útskýringar sem ég get gefið einfaldastar. 

 

Mig vantar að vita; hvað hann  hét meistarinn sem er gefinn upp fyrir mars.

 

Það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

 

Hann er búinn að kynna sig og ég á eftir að hitta hann aftur.

 

Allir fá að hitta alla þegar tímabært er.  En ég myndi nú í þínum sporum ekkert fara að örvænta stórlega, vegna þess að þú munt nú fá örlitla fræðslu um þennan meistara og hlutverk hans eftir tvo daga, og svo aftur eftir mánuð.  Við skulum svona halda þeirri fræðslu á þeim nótum. 

Allt hefur sinn stað og tíma skilurðu.

 

Mig langar svolítið til þess að spyrja í sambandi við jákvæðnina og neikvæðnina.  Er þetta uppeldið sem gerir það að verkum að sumir eru neikvæðir, eða er þetta eitthvað sem þeir fæðast með.

 

Það fæðist enginn neikvæður í sjálfu sér, en neikvæðni og jákvæðni er sitt hvor póllinn á sömu orkunni.  Þannig að við getum horft á það að það er að sjálfsögðu umhverfið alveg frá barnæsku sem móta viðhorf, fyrst barnsins og síðan mannsins til lífsins.  Það er aldrei hægt að segja það nógu oft, að það sem mótar mest manninn eru fyrstu árin í uppvextinum þegar það líffæri sem starfar mest í stjórnun, það er að segja heilinn, er að mótast og mynda sér skoðun á umhverfi sínu.  Það er heldur ekki gott að vera of uppgerðarlegur í jákvæðni sinni.  Þið mynduð trúlega kallað það yfirdrifinn.  Vegna þess að þá fær barnshugurinn það á heilann að þetta sé eitthvað óeðlilegt.  Þess vegna, eins og alltaf er, best að vera sannur, að vera maður sjálfur.  Ef maður hefur ekki tök á því að birta jákvæðnina eins og maður vildi birta hana, þá vinnur maður bara í því að ná þeirri birtingu hægt og rólega og útskýrir fyrir barninu seinna meir muninn á neikvæðni og jákvæðni.  Vegna þess að þegar þú ætlar að fara að leika fyrir barnið þitt, þá er enginn eins fljótur að sjá það eins og barnið.  Þú getur leikið fyrir alla í fjölskyldunni, en barnið situr og hugsar:  “Góður leikari þetta.”   Það kannski hefur ekki einu sinni orð til þess að tjá það, en það veit það samt, að þetta er ekki rétt, það er að segja, satt.

 

Það sem ég var að velta fyrir mér er að það virðist vera ákveðið munstur í sumum fjölskyldum þar sem er neikvæðni.  Er það þá semsagt innrætt hver af öðrum, það er ekki genetískt?

 

Alls ekki.  Neikvæðnin er mjög dugleg við að viðhalda sjálfri sér á meðan jákvæðnin bíður alltaf átekta.  Það er þessi munur sem við aftur höfum rætt um svo oft á þessum fundum okkar; að kærleikurinn hann bíður alltaf eftir því að honum sé boðið inn, á meðan neikvæðnin ber á dyr og ef þú opnar smugu á hurðina, þá æðir hún inn og segir hér er ég.  Ef þú segir ekki við hana; “fyrirgefðu, en væri þér sama þó þú stæðir úti,” þá er hún komin til þess að vera.  En kærleikurinn bíður eftir því að þú segir; “gerðu svo vel, má bjóða þér inn?”  Vegna þess að hann virðir þinn vilja, þínar óskir.

 

Þakka þér fyrir.

Nú ertu búinn að ræða margt sem felst í þeirri vinnu sem við göngum í gegnum núna, er ekki miklu meira áreiti á alla, á allskonar neikvæðni, og því sem fólk er að reyna að vinna á og koma frá sér?

 

Við getum orðað það á þann hátt; að innra með hverjum einstaklingi myndast áreiti og ásókn frá neikvæðninni.  Vegna þess að hún finnur fyrir því að öll aukning á orkustigi þínu ýtir til hliðar neikvæðninni.  Vegna þess að þegar þú eykur, sérstaklega ef þú gerir það á meðvitaðaðan hátt, orkumagnið þitt, þá tekur þú ljósið inn og þar með verða skuggarnir að víkja til hliðar.  Það er samkvæmt öllu lögmáli, að þá víkur enginn þegjandi og hljóðalaust til hliðar þaðan sem hann hefur verið heimakominn.  Þess vegna verður togstreita innra með fólki, þannig að það getur valdið spennu, það getur valdið því að fólk viti ekki hvað það vill.  Það getur líka valdið því að fólk neyti meiri fíkniefna, meira áfengis er ég þá fyrst og fremst að tala um, því að ég lít á það sem hvert annað fíkniefni eins og öll þau lyf sem deyfa vitundina.  Það er ekkert hægt að skilgreina þau í sundur í sjálfu sér.  Vegna þess að þegar þú veist ekki hvað er að gerast í raun og veru, þegar þú ert ekki meðvitaður, þegar þú ert ekki að hugsa um orkuna, þegar þú þekkir ekki orkuna, þá finnur þú bara þessa togstreitu, þá finnur þú bara þetta áreiti, að þú ert spenntur, þú veist ekki hvað þú ert að gera.  Þig langar að gera þetta, þig langar að gera hitt, en samt hefur þú ekki kringumstæður til þess að gera það, og þú getur ekki framkvæmt það án þess að raska alltof miklu í kringum þig.  Þetta er svona það sem fólk getur verið að finna hið innra með sér, þó myndi ég frekar telja að það væri allavega öflugra hjá þeim sem væru ómeðvitaðir um orkurnar.  Því að þeir sem eru meðvitaðir, þeir geta hjálpað jákvæðninni til þess að ýta skugganum til hliðar. 

 

Er eitthvað samhengi á milli þeirrar hitabylgju sem hefur verið að herja á Evrópu undanfarið, og þess að mars hefur verið svona nálægt jörðu?

 

Við gætum allavega alveg látið það líta þannig út vegna þess að þetta passar svo vel saman, en það er nú samt ekki í raun sú ástæða, vegna þess að ef þú hugsar það, þá þarf hitinn frá mars að fara í gegnum svo mikið frost á leiðinni til jarðarinnar.

 

Ég var nú að meina óbein áhrif.

 

Ég veit hvað þú meinar.  Það sem veldur fyrst og fremst þessari hitabylgju á yfirborði jarðarinnar, ekki bara í Evrópu heldur víðar á yfirborði jarðarinnar, er breytt hnattstaða og breyttir straumar í höfunum, sem fylgja breyttri hnattstöðu.  Eins og búið er að segja áður, þá mun þetta verða mjög sveiflukennt fyrstu árin.  Það mun verða óeðlilega heitt, það mun líka detta tilbaka í það sem það var kaldast.  Vegna þess að við getum horft á það frá því sjónarmiði að þegar þú ert að stilla píanóið og þú slærð á nótuna og veist að hún er of dimm, en þú veist ekki hvenær hún er rétt fyrr en þú hefur farið aðeins of hátt með hana.  Þá veist þú að þú þarft að fara aðeins tilbaka aftur til þess að fá hana til þess að hljóma nákvæmlega rétt.  Þannig er verið að stilla þessa hluti saman.  Hins vegar getum við líka horft til þess að það eru svæði í Evrópu sem eiga eftir að hafa hita sem telur um 40°C til frambúðar.  Vegna þess að þegar hnattstaðan breytist, þá hljóta heitu svæðin á jörðinni að færast til eins og allt annað. 

Það er annars afskaplega merkilegt með manninn, að ef það er of kalt, þá grætur hann yfir kuldanum, en ef það hitnar svona þokkalega í kringum hann grætur hann yfir hitanum.  Þessi þjóð á þessu landi borgar fyrir það stórfé að geta flogið til þess að fara í þrjátíu og eitthvað stiga hita, en ef það yrði þrjátíu stiga hiti hér myndi hún gráta yfir hitanum.  Þetta er það sem stundum er svolítið erfitt, að þjóna mannkyninu þegar óskirnar sveiflast svona fram og tilbaka. 

 

Hvað er langt í það, að það verði hér þrjátíu stiga hiti?

 

Það er nú þó nokkur tími í það.  En við getum talað um það að það geti farið einstaka vikur svo hátt kannski eftir 20-25 ár.  En ætli það verði ekki byrjað að gráta fyrr, svona um 25°C eða svo.  Hins vegar er óstöðugleikinn í veðurfari hlutur sem verður mjög erfitt að stjórna orkulega séð.  Vegna þess að eins og ég sagði eru það hafstraumar og síðan þeir hvirflar sem myndast í háloftunum yfir hæstu fjöllum sem hafa þar talsverð áhrif.  Og á meðan hnattstaðan og kuldinn á fjöllunum er að breytast og færast til, þá verður svolítill sveiflugangur á þessu. 

 

Hvað er það sem þér finnst erfiðast að hemja við þessar breytingar?

 

Í augnablikinu, og ég met hlutina aldrei öðruvísi en út frá augnablikinu, finnst mér erfiðast að fást við þann hluta mannkynsins sem vill troða yfir meðbræður sína.  Mér finnst erfiðast að fást við þá orku sem ríkir yfir Miðausturlöndum og Bandaríkjum Norður Ameríku þessa stundina.  Það eru álagspunktar sem eru virkilega erfiðir og það virðist alltaf vera eins og það sé hægt að búa til neikvæðni þar sem hefur náðst að vinna inn jákvæðni á því svæði.

 

Er ekki hægt að blása svolitlum  heilögum anda á þá sem stjórna?

 

Þú ert kannski á lausu til þess að koma og vinna í því með okkur að blása yfir þá heilögum anda?  En ef að við blásum yfir þá heilögum anda þá geta þeir trúlega bara blásið á móti, og ekki vinnum við nú í því að þrasa við fólk um hvað það vill hafa. 

 

En getur verið að túlkun mannanna sé skökk, að hlutverkaskiptingin sé alröng eins og við upplifum hana milli deiluaðilanna?

 

Við getum horft á þetta út frá tvennu sjónarhorni.  Annars vegar getum við horft á það út frá því hvað gerist á þeim stað, til dæmis þar sem Mið-Austurlönd eru í dag.  Það sem gerist á því svæði í sjálfu sér er afskaplega lítið anna heldur en það að menn eru að berja hver á öðrum.  En ef við lítum síðan á áhrifin sem þeir atburðir hafa á annan hluta heimsins, þá erum við að tala um það að þeir eru miklu stærri þáttur í undirbúningnum.  Síðan getum við fært okkur yfir til Bandaríkja Norður Ameríku.  Það er alveg ljóst að með þeirri stefnu sem þeir hafa fylgt seinustu tuttugu árin um það að þenja sig alltaf út í áhrifasvæðin, að þenja áhrif sín alltaf út, það skiptir ekki máli hvort þú innlimar eitthvert ríki með herafla eða hvort þú kaupir það með peningum, það er enginn munur þar á vegna þess að þú stjórnar eftir sem áður.  Það er aldrei hægt að þenja slíkt út nema að ákveðnum mörkum, því að þá er þenslurýmið búið og þá hljóta hlutirnir að fara að snúast tilbaka og þeir falla saman.  Það er lærdómurinn sem Bandaríki Norður Ameríku eiga eftir að fara í gegnum;  það er að falla saman, og verða kannski í mesta lagi jafningjar á meðal allra hinna.  Það verður kannski fyrir suma erfiður skóli, en fyrir mest allan almenning í þessu landi verður það kærkomin hvíld á öllu áreitinu sem það hefur orðið fyrir frá þeim sem hafa verið að þenja út.

 

Hvað gerist það á löngum tíma?

 

Það gerist ekkert á mjög löngum tíma, en þó er verið að tala um fimm ára tímabil eftir að það byrjar að hrynja saman.  Það er hins vegar ekki hægt að tímasetja það nákvæmlega hvenær það byrjar því það eru svo margir aðrir þættir sem spila þar inn í. 

 

Hvað varðar efnahagskerfið, verður það þá Evrópusambandið sem tekur við?

 

Það er ekki meiningin að nokkur komi og taki við og fylli út í.  Vegna þess að það sem hefur verið að eitra efnahagskerfi jarðarinnar fram til þessa er það hversu fjármunirnir hafa verið á fárra höndum.  Þá er ég ekki að tala um svona eins og í þjóðfélaginu Íslandi, heldur á jarðarvísu.  Því að þeir sem hafa mest fjármagnið í heiminum, þeir ráða mestu.  Þeir geta nánast, miðað við nútíma tækni og annað það sem boðið er uppá í dag, gert það sem þeim sýnist.  Þeir kaupa sér ríkisstjórnir, vegna þess að þeir ráða því hvort peningaflæði til ríkissjóða þessa eða hins ríkisins eru jákvæð eða neikvæð.  Þegar þú hefur þessi yfirráð, þá kaupir þú það sem þér sýnist.  Þegar það einu sinni er búið að festa einhvern í netinu, þá gerir hann eins og honum er sagt að gera, því annars er hann farinn frá og aðrir taka við, sem vilja hlýða.  Þannig virkar lýðræði Vesturlanda í dag. 

 

Er ekki um að gera að senda þeim ljós?

 

Það finnst mér alveg þjóðráð, svo við notum nú Íslenskt orðfæri.  Þið megið líka vita það að Ísland er ekkert undanskilið í þessu tafli þeirra stóru.  Vegna þess að það eru margir sem hefðu meira að segja áhuga á að kaupa Ísland, svona litla eyju úti í hafi, til þess að geta átt þar sumarfrí.  Svona hugsa þeir sumir sem eiga þessa fjármuni. 

 

Eru Bandaríkjamenn búnir að eiga Íslendinga lengi?

 

Þeir hafa nú svona meiripartinn átt þetta land síðan það sem á sínum tíma var kallað Marshall aðstoð kom hingað eins og annars staðar í Evrópu.  Hins vegar verðum við að horfa til þess að í evrópuríkjum eins og Bretlandi er svo sterk þjóðerniskennd og það öflugt hagkerfi að Bandaríkin hafa aldrei getað slegið eign sinni þar á.  En þeir hafa alltaf haft gott lag á því að spila á þá kennd meðal breskrar þjóðar að Bretar skuldi þeim lífgjöfina.  Og það vita allir hvaða tilfinningar sá ber sem telur sig skulda lífgjöf einhverjum öðrum. 

 

Er ekki líka björgunin farin að snúast upp í andhverfu sína í Írak?

 

Það er mikill misskilningur að halda það að Íranska þjóðin hafi einhvern tíma haldið að Bandaríkjamenn væru einhverjir bjargvættir fyrir þá. 

Þú getur líka farið heim í eldhús hjá sjálfum þér og sagt sjálfum þér að þú sért að bjarga heiminum.  Þú getur meira að segja hringt í fólk, og sagt fólki að þú sért að bjarga heiminum.  En síðan er það spurning hvort að heimurinn sem þú ert að bjarga tekur mark á þér. 

Við getum horft á annan þátt sem er miklu ríkari í þessu, hvernig við horfum á þetta í dag.  Bandaríkjamenn eru búnir að vera að bjarga heiminum í tíu, fimmtán, tuttugu ár og lengur.  Það er þeirra útþenslutími á áhrifavaldinu.  En í dag geta þeir ekki komið í veg fyrir það að þú heyrir hinar raddirnar.  Vegna þess að áróðursvélin sem þeir hafa getur ekki þaggað niður í öllum hinum röddunum.  Þannig breytist heimurinn með opnari orku með því að fólk fær frelsi til þess að vera það sjálft og tjá sig út frá því.  Hins vegar má ekki skilja orð mín svo að ég deili á einn eða neinn og margt hafa Bandaríkjamenn gert til þess að hjálpa þeim sem verið var að fara illa með.  Það er ekki nokkur spurning, og það er ekki það sem ég er að fjalla um.  Ef ég væri að fjalla um það, þá myndi ég hrósa þeim fyrir það.  Allir skulu eiga það sem þeir hafa til unnið.  Hins vegar máttu aldrei geta gert góðverk og gert svo það sem þér sýnist í valdi þess að þú gerðir einu sinni góðverk.  Þannig eru hlutirnir farnir að snúast upp í andhverfu sína. 

 

Hvað breytist hérna þegar herlið Bandaríkjamanna er farið?

 

Við skulum nú leyfa því að fara fyrst, áður en við förum að velta okkur upp úr því hvernig það breytist.  Eitt eru orð og annað eru gjörðir. 

 

Svo það verður áfram hérna?

 

Nú, einhver verður nú að vagga vöggunni svo að menn geti sofið rólegir. 

 

Nú hafa menn það fyrir satt að það lifi 5-6 manns á hverjum hermanni bandaríkjanna erlendis, að þetta sé ekkert ósvipað og var í Rómarríki að það hafi svo margir hagsmuna að gæta í stríðsrekstrinum.

 

Það að selja hermönnum föt og vopn býr ekki til nýtt verðmæti.  Það gerir aðeins hlutina þannig úr garði að þeir eru farnir að fara í hring.  Þeir skapa ekki nýtt fjármagn vegna þess að þeir hlutir sem þannig eru seldir, eru bara teknir úr einhverju öðru.  Fjármagnið sem er í umferð á jörðinni er ákveðið.  Þú getur aldrei í rauninni búið til hagsæld á meðan þú ert að hringsnúa sama fjármagninu fram og til baka.  Þú gætir selt þessa sömu vöru fyrir jafnmikla eða meiri peninga ef önnur ríki sem ekki hafa til hnífs og skeiðar, fengju að hafa til hnífs og skeiðar þannig að þau gætu keypt vöruna, alveg eins og þú úti í búð.  Þessi ríki, ef þau fengju slík lífsskilyrði, þá myndu þau aftur skapa nýtt verðmæti inn í heiminn. 

Það er eins og ég sagði hér áðan, það eru þessir örfáu sem stjórna fjármagni heimsins.  Þegar þessir hlutir fara að ganga í sundur og falla saman, þá mun fjármagnið dreifast.  Vegna þess að þú getur svelt manninn að ákveðnum mörkum, en þegar hann hefur verið sveltur yfir þau mörk er ekkert sem heldur aftur af honum í því að taka það sem hann á.  Hvað á maðurinn?  Það eiga allir menn skilyrðislausan rétt til þess að hafa á sig klæði og í sig fæði.  En það hefur enginn maður rétt til neins meira í raun og veru.  Húsaskjól þurfa sumir sem eru í þeim heimshlutum þar sem slíkt er nauðsynlegt.  En að mannkynið, eða það er að segja örfáir aðilar af mannkyninu geti safnað um sig öllum auði jarðarinnar og dreift honum svo úr sinni hendi að sinni vild, það getur aldrei verið þannig sem upp var lagt í upphafi.  Þess vegna, af því að þú nefndir Rómarríki á þeim tíma, þess vegna hrundi efnahagur Rómaveldis, það er að segja vesturhlutans, vegna þess að hann var kominn í hring.  Það var ekkert nýstreymi, það var ekkert nýtt að gerast.  Þegar þú ferð að velta sömu krónunni fram og tilbaka endar með að hún verður svo slitin að hún dettur í sundur.  Við getum reiknað fram og tilbaka en þegar upp er staðið er það eðlishvötin sem stendur eftir, og hvað þarf ég til þess að lifa.  Þannig mun það alltaf verða.  Eftir því sem orkan opnar meira inn á tilfinningar fólks, eftir því sem fólk fer að verða meðvitaðra um jákvæða strauma orkunnar og ljóssins, eftir því fær það meira frelsi, eftir því losnar það við meiri ótta og rífur sig undan þeirri stjórnun sem er óréttlát, því það er ekki öll stjórnun óréttlát en sum er það, og það er hún sem er í álagi í dag, það er sú stjórnun sem verður fyrir áreitinu, þar er togstreitan, vegna þess að hún getur ekki réttlætt sjálfa sig.

 

Samsæriskenningin um 11. september, að þeir hafi gert þetta sjálfir bandaríkjamenn, er einhver fótur fyrir því?

 

Nei.  Þó þeir taki nú til ýmissa ráða til þess að koma sjálfum sér á framfæri, þá verður það nú að segjast eins og er að svo langt ganga þeir ekki.  En svo má segja bandaríkjamenn og bandaríkjamenn, vegna þess að það voru einstaklingar sem geta talist bandarískir þegnar frá upphafi, sem tóku þátt í þessu.  En bandarísk stjórnvöld, eða þeir sem ráða ríkjum, hvort sem þeir eru fjármálamenn eða pólitíkusar tóku ekki þátt í þessu. 

 

Mig langar til að spyrja svolítið í sambandi við sjúkdóma?  Það er maður hérna sem er að fara í aðgerð og er að biðja um hjálp.  Hann er með æxli, heilaæxli.

 

Að sjálfsögðu fær hann þá hjálp sem við getum veitt, og þann stuðning, bæði orkulega og með því að vinna á móti þeim áhrifum sem þetta æxli er að skapa.  Hins vegar veit ég ekki hvað ég get sagt mikið um æxlið sem slíkt, eða aðgerðina öðruvísi en með þeim orðum að ef að fólk heldur í jákvæðnina þegar það er að takast á við sjúkdóma, ef það reynir að gera sitt allra besta til þess að halda í jákvæðnina og þannig berjast á móti áhrifum sem sjúkdómarnir setja inn í líkamann, þá flýtir það fyrir öllum lyfjum og öllum aðgerðum.  Það hjálpar læknunum, hvort sem þeir eru í holdi eða anda, til þess að komast fyrir og lækna sjúkdóma.  En þér er velkomið að spyrja nákvæmar ef þú vilt. 

 

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá hjálp sem ég hef fengið, en svo er maður hérna sem hefur átt við þunglyndi að stríða, hvort það er eitthvað hægt að gera?

 

Við getum alltaf hjálpað að einhverju leiti í gegnum orkuna.  Þunglyndi byggist að vísu talsvert upp á því að ná að hreinsa út þessa líkamlegu hugsun til þess að færa jákvæðni inn í hana.  Það þarf oftast nær að gera það í gegnum einhvers konar samtalsmeðferðir vegna þess að þegar þunglyndi er annars vegar, þá er hugurinn látlaust að rökræða við sjálfan sig, yfirleitt á neikvæðum nótum, um þá hluti sem eru svo erfiðir, sem eru svo stórir, og þar fram eftir götunum.  Þess vegna vantar yfirleitt röddina, hina jarðnesku rödd á móti, sem bendir á og hefur þolinmæði til þess að rökræða við neikvæðnina á jákvæðum nótum.  Ekki með því að vera afundinn og stirður, heldur með þolinmæði til þess og skilning að það er verið að takast á innra með einstaklingnum um jákvætt og neikvætt.  Alltaf viljum við öll að það jákvæða vinni.  En ég skal, og við, gera það sem í okkar valdi er, til þess að vinna með orkunni og þannig reyna að snúa við, eigum við að segja orku hugsunarinnar. 

 

Ég þakka fyrir.

 

En nú er þetta að verða bara býsna gott hef ég trú á, þó örlítið fyrr hefði verið.  Ég vil þakka ykkur öllum fyrir að leyfa mér að koma hér og eiga við ykkur orðastað.  Greifinn af Saint German biður ávallt kærleika, ást og frið að ríkja hið innra sem hið ytra, hið efra sem hið neðra, og blessun að ríkja á meðal ykkar.

Til Baka.