Til Baka

Saint German.

24. Ágúst, 2003

 

Góða kvöldið. 

 

Góða kvöldið og vertu velkominn.

 

Þökk fyrir það og séuð þið velkomin, öll sem hér eruð.  Í kvöld höfum við hugsað okkur að halda áfram í raun og veru í svipuðum tón og við höfum verið í síðan við hófum nýja fundaröð, ef við getum notað það haglega orð.

Við ætlum að horfa á það með augum hvers og eins ykkar að sjálfsögðu, þó að ég ætli að leggja einhver orð inn í þá umræðu, hvernig það er að lifa með sjálfum sér.

Við getum horft á það og orðað það líka; að þola sjálfan sig.  Margir kunna betur við það orðalag, en hins vegar finnst mér það neikvæð framsetning á þessu hugtaki.

Vegna þess að það er nefnilega alveg sama hvað við gerum.

Við neyðumst til þess að lifa með sjálfum okkur.

 

Getum við ekki notað orðið að umbera sjálfan sig?

 

Víst getum við notað það orð.

En þá erum við ennþá búin að setja þetta upp í svona einhvers konar þrautagöngu.

Og  ef við stígum eitt skref fram á við, nemum þar staðar og lítum í kringum okkur og horfum á það sem í kringum okkur allstaðar er eitthvað sem fer í taugarnar á okkur.

Það er allt ómögulegt hérna megin.

Maður skilur ekki af hverju þetta er svona.

Þá snýrðu þér við og ætlar að fara í hina áttina, og hvað er þetta að þvælast þarna.

Ef við hugsum þetta á þessum nótum, ef við hugsum þetta út frá þessum hugsanagangi, þá líður okkur alltaf illa með sjálfum okkur.  Vegna þess að þá erum við ekki að leita að því góða sem býr innra með okkur sjálfum, heldur því sem okkur finnst ómögulegt.

En ef við lítum í þessa átt og segjum; já, þetta er nú bara nokkuð gott.  Hvað skyldi vera hinum megin?

Jú þetta er nú ekki sem verst heldur.

Þetta er það sem ég myndi telja svona lægsti punkturinn sem við færum í.

Vegna þess að allir hlutir eiga sér tvær hliðar, flestir eiga sér fjórar hliðar.

Og ef við skoðum bara eina hliðina, þá er voða hætt við því, að við sjáum bara neikvæðu hlutina í kringum okkur og það að við þolum ekki sjálf okkur.

En ef við veltum teningnum við þá sjáum við að það eru líka til góðar hliðar á okkur sjálfum.

Og þegar við höfum séð þessar góðu hliðar, af hverju förum við þá ekki bara að vinna í því að teningurinn lendi alltaf á þessum góðu hliðum, eða eins oft og kostur er.

Hvers vegna snúum við ekki teningnum í hvert skipti sem við sjáum ekki okkar góðu hlið, þannig að við sjáum hana?  Hvers vegna reynum við ekki að tryggja það að teningurinn sé alltaf þannig að okkur líði vel?

Öll sú vinna sem ég hef talað um í þessari nýju fundaröð, hún gerist ekki með því að smella fingri.

Það verður enginn árangur með því að segja:  Já ég ætla að gera það.  Vegna þess að þetta kostar vinnu með sjálfum sér.

Þetta kostar fyrirgefningu til sjálfs sín, en fyrst og fremst og eingöngu til sjálfs sín.

Vegna þess að hinir sem eru í kringum okkur, þeir koma ekki okkar innri líðan við.

Vegna þess að þeir eiga sitt heimili, og þá er ég að tala um orkulega, sem orkuhjúp, og við þurfum ekki að blanda okkur í það heimili nema við viljum það sjálf.

Alveg sama hversu skylt okkur fólkið er, vegna þess að ef við erum að taka afstöðu til okkar nánustu, þá þurfum við að gera það á okkar forsendum og út frá okkar hugsun, en ekki út frá því hvað það hugsar.  Vegna þess að ef við gerum það á þeim forsendum, þá verðuð við að túlka hugsanir annarra og þá hljóta að myndast spennur á milli þessa fólks.

Þess vegna þurfum við alltaf að sjá okkur sjálf sem skínandi ljós, og síðan að deila þessu ljósi til þeirra sem í kringum okkur eru í lífinu á þann hátt að við erum ekki að þröngva því upp á neinn, heldur stendur það þeim til boða sem það vilja taka til sín.

Við þurfum að leyfa okkur að vera við sjálf.

Ekki einhver mynd sem er dregin upp öðrum til þóknunar, ef við notum það orð.

Og við eigum ekki að horfa á okkar neikvæðu hliðar bara svo að einhver annar sé ánægður.

Þannig getum við aldrei fundið þann kærleika sem býr innra með sjálfum okkur.

Við eigum að fara inn í kjarnann okkar, finna okkar eigin kærleika og vinna okkur út frá honum.

Senda hann alltaf á undan okkur í hvert skúmaskot, ef við getum notað það leiðindaorð, sem er innan okkar áruhjúps.

Lýsa upp allan okkar áruhjúp!

Það er sá forgangur sem við hljótum að setja þegar við erum að vinna með okkur sjálf, með okkar tilfinningar.

Við eigum ekki að vinna með okkar tilfinningar til þess að einhverjum öðrum í kringum okkur líði betur með það.

Til þess að við séum þægilegri í umgengni fyrir einhverja aðra.  Heldur til þess að okkur líði betur hið innra með okkur sjálfum.

Þannig, fyrst og fremst þannig virkar hin raunverulega sjálfsheilun fyrir hvern og einn.

Allt sem við gerum okkur erum við að gera fyrir sjálf okkur vegna þess að okkur langar til þess að líða betur, okkur langar til þess að finna þetta jafnvægi innra með okkur, sem er á þessum möndli sem þarf afskaplega lítið að hreyfast til svo að önnur skálin  hallist og dragi hina upp.

Það er markmiðið með allri þeirri vinnu sem við vinnum með sjálfum okkur.

Ekki það að þóknast einhverjum úti í bæ, til þess að honum geti liðið betur yfir því að við höfum lagað okkur að hans þörfum.  Hvað um okkar eigin þarfir?

Hvað um okkar eigin tilfinningar, okkar eigin líðan?

Ég ætla að láta þetta liggja með þessum orðum í kvöld, stíga eitt skref afturábak, inn í mína miðju og taka við þeim spurningum sem kunna að berast í huga ykkar og þið viljið bera fram.

Og þá náttúrulega hefur það aldrei brugðist að það getur enginn tekið til máls, vegna þess að það eru allir að reyna að byrja.

 

Hvað erum við að nota mikla orku á dag?

 

Eigum við þá að mæla það í gigawöttum eða?

 

Þú ræður því.

 

Ég ræð því.

Þú ræður því líka hvað þú notar mikla orku yfir sólarhringinn.

Stundum notar þú kannski orku sem samsvarar öllu því sem notað er í að lýsa upp hús þessa lands.

Vegna þess að þú ert örlátur við umhverfi þitt og sjálfan þig.  Stundum ertu bara ekkert í góðu skapi og lokar á það að þér geti liðið vel, og þá notar þú afskaplega litla orku.

Þannig er ekkert meðaltal til um það hvað einstaklingurinn notar mikla orku.

Hann notar fyrst og fremst það sem hann vill taka til sín, og kærleiksorkuna tekur einstaklingurinn ekki til sín nema hann sé jákvæður og tilbúinn til þess að leyfa sér að líða vel.

Honum þarf ekki að líða vel þegar orkan byrjar að streyma til hans, en hann þarf að biðja um það að honum megi líða vel til þess að orkan komi. 

 

Má ég þá kannski spyrja?  Nú er ég búinn að vera svolítið pirraður í dag og dasaður og slappur.  Er það vegna þess að ég er ekki nógu móttækilegur til að meðtaka þessa orku sem þú ert að tala um?

 

Þá komum við að öðrum þætti sem kannski svolítið margir hérna inni kannast við um þessar mundir.

Það hvað allir eru pirraðir.  Það hvað allir eru svona sundurtættir, ef við getum notað það orð.

Það stafar út frá því orkustreymi sem við ræddum hér á fyrsta fundinum í þessari fundaröð fyrir þrem vikum síðan.

Um það að marsinn er svo nálægt sólinni.

Sem síðan er nálægt jörðinni.

Og þessi orka sem kemur inn í gegnum tunglið, eins og ég sagði þá að myndi verða svolítið erfið tilfinningalega, og eins og ég sagði þá, að þá kemur eins lítið inn af þessari orku inn í gegnum tunglið eins og kostur er.

Vegna þess að það yrði of erfitt fyrir fólk að taka þessa orku inn í tilfinningaorkuna.

Þó að tunglið sé nánast í fullum skugga þessa dagana þá sendir það þessa orku inn.

Við getum horft til þess að ef það væri fullt á himninum, hvaða áhrif það myndi þá hafa.

En síðan verðum við að horfa til þess að í meyju kemur inn miklu mildari orka.

Og tunglið mun rísa næstu daga með mun mildari orku, en það þýðir ekki að þið getið ekki orðið svolítið pirruð, vegna þess að meyjan getur verið svo óttalega smámunasöm.

Hún þarf alltaf að þurrka rykið sem er undir rykkorninu, ef við notum það orðaval.  Já er það?

Þær eru nú einhverjar hérna blessaðar.  En sannleikurinn særir aldrei neinn þegar hann er sagður.

En svo skulum við líka horfa til þess að þó að sumir ykkar kunni að pirrast yfir smámunaseminni sem kemur með meyjar orkunni, þá líður meyjunum afskaplega vel með þeirri orku.

Og þið hin þurfið þá bara aðeins að taka ykkur á í því að vera svolítið nákvæmari og svona tillitssamari, ef við notum það orðaval.

Og enginn verður af því svikinn að meyjan gefur allt sem hún á hverjum sem það vill þiggja. 

 

Mig langar til að spyrja í sambandi við það sem þú sagðir áðan, þetta að líða vel með sjálfum sér, býr maður þetta til sjálfur með eigin hugsun eða fær maður þetta líka ef maður biður, eða gerir maður hvort tveggja?

 

Við skulum orða það þannig; ég hef stundum lagt mínum farveg þau orð í munn þegar hann er að ræða þessa hluti svona á almennum stöðum, að til þess að geta elskað aðra þarftu að elska sjálfan þig.

Sá kærleikur sem þú gefur öðrum kemur alltaf innan frá þér, þó að þú fáir um leið viðbótina ofanfrá um leið og þú ert tilbúinn til þess að senda kærleikann frá þér.

Þegar þú ert að leita að góðri líðan hið innra með sjálfum þér, þá þarftu að sjálfsögðu að skoða það í hugsuninni hvað það er sem þér finnst að valdi þér vanlíðan.

En ég myndi líka orða það þannig að eitt af því mikilvægasta sem þú gerir er að biðja um hjálp til þess að þú megir umbreyta þinni vanlíðan á þann hátt sem á við þig, og bara þig.

Vegna þess að enginn getur tekist á við þessa hluti á sama hátt.

Allir eru einstakir og sérstakir, einstakt sköpunarverk sem þurfa leiðsögn í hverju máli fyrir sig.

Þess vegna biður hver og einn um sína hjálp.

Það skiptir ekki máli hvort það er til sinna leiðbeinenda eða til almættisins, eins og þið kjósið nú kannski helst að orða það.

Hvort tveggja kemst jafn vel til skila þangað sem það þarf að fara. 

 

Þessi orka sem þú varst að tala um áðan, sem er að pirra fólk.  Er þetta að pirra allt mannkynið í heild?

 

Flestir þekkja þessa tilfinningu vegna þess að allir eru aldir upp í einhverjum munstrum, bæði hvað varðar fjölskyldur og einnig samfélögin sem þeir fæðast inn í.

Það er að sjálfsögðu mismunandi eftir því hvernig samfélagið er sem hver og einn fæðist inn í.

Og síðan aftur hitt hversu heilbrigð eða óheilbrigð fjölskyldan er sem viðkomandi lifir í fyrstu ár ævi sinnar og lærir af sín munstur.

En allir eiga einhvern tíma á ævigöngunni í holdlegum líkama eftir að finna þennan pirring yfir því að þeir eru einhvern veginn allt öðru vísi en þeir vilja vera.

Gera eitthvað allt annað heldur en þeir vilja vera að gera.  Það er bara spurning hversu sterkur þessi pirringur er og hversu mikið hver einstaklingur finnur fyrir honum.

Og það, eins og ég sagði í upphafi, stjórnast af samfélagsmynstrum fyrst og fremst. 

Mér sýnist vera nokkuð rólegt yfir mannskapnum í kvöld.

Enda kannski engin tilviljun, vegna þess að ég hef víst eitthvað með það að gera eins og svo margt annað. 

 

Hvað sérðu marga pirraða hér?

 

Þeir voru nú kannski einhverjir þegar ég kom inn, en ég held að þeir séu allir orðnir svona mjög þokkalega slakir núna.

Enda var orkan sett upp með það í huga. 

En nú ætla ég ekki að sóa tímanum í að leita mér að þarflausum orðum sem ekki hafa neitt annað að gera heldur en að gleðja kímnisvip einstaklinganna.

Ég þakka ykkur fyrir það að leyfa mér að koma hér.  Þakka ykkur fyrir að leyfa mér að tala til ykkar.

Megi kærleikur, ljós og friður ávallt ríkja með ykkur hið innra sem hið ytra, hið efra sem hið neðra.

Svo mælir Greifinn af Saint German, sem biður ávallt frið og kærleika að ríkja á þessari jörð, svo og í öllum alheiminum.

 

 

Til Baka